13.4.2010 | 07:06
Þjóðstjórn hefði engu breytt
Það að stofna þjóðstjórn viku fyrir hrunið hefði bara ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut. Það var orðið of seint að bjarga bönkunum strax 2006, hvað þá viku áður en bólan sprakk. Auk þessi hefði aldrei náðst samstaða um þjóðstjórn eða neitt annað hjá þessu rugludallaliði sem "stjórnaði" landinu.
Það sem maður hefur lesið úr skýrslunni sýnir að ríkisstjórn Íslands og allt þetta pólitíska lið upp til hópa eru eins og skælandi smákrakkar haldandi um leikföngin sín. Gersamlega óhæf til þess að gera neitt að viti, þekkingarleysið, dómgreindarleysið og firringin svo alger að það var alveg borin von að nokkur hlutur hefði verið gerður til þess að forða þessu frá falli, hver svo sem hefði komið að þessu. Menn sem fóru til fundar við breska fjármálaráðherrann og aðstoðarmenn hans furðuðu sig á því að Alistair Darling vissi allt um þessi bankamál á Íslandi - Bretarnir vissu meira heldur en íslenska sendinefndin! Segir það ekki allt sem segja þarf um algjöra vanhæfni Íslendinga til þess að takast á við alþjóðlegar fjármálastofnanir?
Þetta skýrir líka algjörlega hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn Íslandi. Þeir vissu sem var að það var borin von að finna nokkurn mann með viti sem gæti og þyrði að taka ákvarðanir. Þetta lið var allt með buxurnar á hælunum, volandi og skælandi og gat ekki hugsað sér að gera neitt því þá myndi falla á eigin glansmynd. Þessi skýrsla skýrir líka hversvegna Bretar og Hollendingar hafa verið svo ósveigjanlegir í Icesave deilunni. Af hverju í ósköpunum ættu þeir að treysta þessum vitleysingum?
Það er sárgrætilegt að sjá hvernig fólk, sem hafði ekki hundsvit á því hvað það var að gera, hvorki í pólitík eða viðskiptum, hefur farið með Ísland.
"Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma"
Því miður þá gleymdi þetta lið að Ísland var land þess. Það gleymdi að það fór með fjöregg þjóðarinnar og glutraði því niður. Það gleymdi að því var treyst, bæði á Íslandi og erlendis og því var alls ekki treystandi. Það gleymdi að segja sannleikann, við erum að lesa hann núna. Það gleymdi að Ísland er landið okkar, landið sem Íslendingar voru stoltir af, landið sem við höfðum mætur á. Þetta "útvalda" lið algjörlega vanhæfra pólitíkusa og "viðskiptajöfra" saurgaði landið okkar.
Kveðja,
![]() |
Uppnám vegna orða um þjóðstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |