10.9.2010 | 07:15
Af hverju komst það ekki að bryggju?
Ég er nú svo utanveltu í íslenskum fréttum að það hefur alveg farið framhjá mér hversvegna skemmtiferðaskipið gat ekki lagst að bryggju? Var það of stórt eða djúprist eða voru einhver vandræði með strauma? Þessir dallar eru engin smásmíði og þessi skip koma af og til hingað til Port Angeles og einu sinni í sumar lágu 3 stykki á ytri legunni á sama tíma! En hér er höfn fyrir risaolíuskip upp í 365 metra löng (1200 fet) og dýpt við kant upp á rétt um 11 metra (35 fet) og það koma hér að bryggju olíuskip sem eru rétt undir tvö hundruð þúsund tonn, svo sem Alaskan Navigator og systurskip sem eru rétt rúm 185 þúsund tonn, svo þeir geta tekið við flestu.
Það væri gaman ef einhver gæti sagt mér hvaða vandamál komu upp:) Ég vann við höfnina á Reyðarfirði í mörg ár þegar vantaði fólk í út- og uppskipun og hef haft ólæknandi dellu fyrir flutningaskipum síðan;)
Kveðja,
70-80 milljóna tap þar sem skipið komst ekki í höfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Málið er að yfirbyggingin á þessum skipum er alveg rosaleg. Svona yfirbygging er eins og segl og margfaldar upp minnsta vind. Reykjavíkurhöfn er fræg fyrir svakalega sterka vinda og hafa Eimskpafélagsskipin oft þurft að taka á honum stóra sínum til að losa sig frá kantinum.
Þessi farþegaskip eru með svakalegar vélar, en eins og fyrr sagði þá þarf alveg gríðarlega öflugar vélar og ekki síst skrúfur til að snúa þeim.
Þegar frystitogararnir komu fyrst til Íslands þá var það oft vandamál með þá að þegar þeir voru úti í vondum veðrum þá gátu þeir ekki beygt nema dæla á milli tanka til að vega upp á móti vindálaginu og minnka hallann á skipunum.
Þegar ég var á F/V Alaska Ocean á síðasta ári uppi í Barentshafi þá fann ég vel hvernig þessi ofboðslega stóra síða á skipinu gerði skipsstjórnendum erfitt fyrir, maður gat séð rekið í plotternum.
Þannig að þetta er spurning um vind vs yfirbyggingu, Þess utan þá er Reykjavíkurhöfn frekar þröng fyrir svona tröll.
Heimir Tómasson, 10.9.2010 kl. 07:38
Skipið átti að leggjast að Skarfabakka sem liggur samsíða Viðeyjarsundi. Stífur vindur lá að bryggjunni og taldi skipstjórinn mögulegt að hann næði skipinu ekki frá bryggjunni aftur.
Vindfangið er gríðarlegt. Skipið er 290 metra langt og yfirbyggingin ca 50m ofan við sjólínu. Á móti er djúpristan aðeins 8,5m.
Guðmundur (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 08:00
Ástæðan var einfaldlega sú að vindhraðinn fór upp í 30 hnúta þegar reynt var að sigla inn og hámarksvindhraði má ekki fara yfir 25 hnúta
til að hægt sé að hafa stjórn á skipinu.Var um borð.
Stefan Ellertsson (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 08:19
Sælir Heimir, Guðmundur og Stefán og þakka póstana!
Ég er búin að búa svo lengi erlendis að ég hafði alveg gleymt íslenska rokinu;)
Heimir: Hafði gaman af að lesa á blogginu þínu um veiðar í Bearings hafi. Við höfum horft á þáttaröð á Discovery sem heitir Deadliest Catch og er um krabbaveiðar í Beringshafinu. Maður sér þetta líka á olíuskipunum sem koma hérna inn sundið eða hérna inn á höfnina því þau koma hingað nánast alltaf tóm. Eins fara hér um stór gámaskip á leið inn til Seattle og Vancouver svo það er alltaf traffík hérna á Juan de Fuca sundinu. En þeir eru líka með öfluga dráttarbáta hérna sem geta tekið þessi skip í tog og komið þeim þangað sem þau þurfa að fara, en það er mjög sjaldgæft að það hreyfi vind að nokkru ráði hérna miðað við það sem maður vandist á heima á Íslandi!!!!
Ef þið hafið áhuga þá getið þið kíkt á myndir héðan á http://arnor.zenfolio.com/
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 11.9.2010 kl. 01:39
Sæll aftur.
Ég þekki Edgar Hansen vel, bý hérna stutt frá honum í Mountlake Terrace og dætur okkar eru saman í bekk. Sem gamall sjómaður hef ég einnig virkilega gaman af Deadliest Catch. Ég kann eina reyndar ágæta sögu af Deadliest Catch liðinu.
Fyrir um 3 árum var ég staddur í Dutch Harbor einu sinni sem oftar. Fór þangað 3-4 sinnum á ári, var á leið til eða frá Akutan. Að þessu sinni var Janúar, fimbulkaldur og vindur mikill. Ég var veðurtepptur í Dutch Harbor svo það var lítið annað að gera en að kíkja á barinn á kvöldin. Þar hitti ég Sig Hansen, Jonathan og Andy Hillstrand og Phil Harris. Ég tók upp spjall við þá, reyndar á þeim forsendum að ég var gamall sjóari og langaði að vita meira um tilteknar aðferðir við krabbaveiðar. Ég sæa fljótlega hvernig karakterar þetta voru, Sig var rígmontið leiðindaspjald, Phil vildi lítið við mig tala nema um veiðiaðferðir, Andy gerði bara grín að öllu og Johnathan var upptekinn við að vera gríðarlegur jaxl. Samt fór vel á með okkur og þeir buðu mér glas eftir glas, reyndar svo mörg að það var nú farin að koma talsverð slagsíða á mig og hugrekkið kannski meira en efni stóðu til.
Deadliest Catch kom aldrei til umræðu þarna fyrr en seint og síðar meir. Þá spurði Sig mig hvort að ég kannaðist ekkert við The Deadliest Catch. Ég kvað já við og bætti við að þeir þættir væru talsvert vinsælir meðal fiskimanna á Íslandi.
"Núnú" sagði Sig og var rogginn.
"Já" sagði ég, "þeir kalla þættina Sissies at sea".
Sig varð eldrauður í framan og Johnathan rauk á fætur og ég hélt sveimérþá að hann ætlaði að berja mig. Phil rak upp þennann rokna hlátur og tók bakföll. Ég fór að hlæja eins og hálfviti og þeir föttuðu þá djókinn alveg um leið. Það sem eftir lifði kvölds þá þurfti ég ekki að kaupa eitt einasta glas.
Það var farið seint að sofa það kvöldið, get ég sagt þér. Fyrir um ári síðan hitti ég Andy Hillstrand í Boston og hann mundi strax eftir mér og fór að tala um þetta kvöld. Mér þótti vænt um það að hann skyldi muna eftir því
Þetta er mitt "claim to 15 minutes of fame" :-).
Heimir Tómasson, 11.9.2010 kl. 02:54
Heimir:
Frábær saga! Áttaði mig ekki á því að þú værir í Seattle. Ég keyri framhjá þér stundum þegar ég er að fara á .NET user group fundi í Redmond;) Það væri gaman að hitta á þig og ef þú átt einhverntíma leið hérna út á Ólympíuskagann endilega láttu mig vita og ég renni á könnuna! Þú getur sent mér póst á arnor@icetips.com. Við hjónin vinnum bæði heima (og fyrir okkur sjálf) svo það er einhver heima nánast alltaf.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 11.9.2010 kl. 03:42
Ok, þannig að þú tekur Edmonds ferjuna náttúrulega. Endilega, það væri gaman að kíkja á þig. Ég sendi þér póst og við rottum okkur saman.
Heimir Tómasson, 11.9.2010 kl. 04:23
Ég horfi oft á þessa þætti og hef gaman af. Sagan góð hjá Heimi. :) "Sissies at sea" he he he
Sjálfur dvaldi ég í Seattle í rúmt ár á fyrri öld og man eftir svona döllum líða inn "sundið". :)
Marinó Már Marinósson, 16.9.2010 kl. 12:36
Takk Marinó,
Vissi ekki að þú hefðir verið hérna! Við unum okkur mjög vel hérna út við Juan de Fuca sundið í Port Angeles. Svolítið stærra en fjörðurinn í dentid, en samt ósköp svipað:) Veðurfarið mildara og hreyfir aldrei vind að ráði hérna.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 16.9.2010 kl. 19:26