Dagblöð á netinu

Ég hef fylgst dálítið með þessari umræðu hjá CBC útvarpinu í British Columbia hérna hinumegin við Puget sundið.  Margir fjölmiðlamenn eru nokkuð uggandi yfir þeirri þróun að flytja fréttamennsku frá dagblöðum yfir á netið.  Orsökin er einkum sú að netmiðlar geta ekki greitt sömu laun og haldið úti sama mannskap í fréttamennsku og dagblöðin.  Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að netmiðlarnir eru venjulega ekki í áskrift heldur afla tekna með auglýsingum.  Megninu af auglýsingum á netinu er dreift í gegnum leitarvélar á borð við google og yahoo sem eru orðnar nokkuð fastar í sessi. 

Þessi þróun dagblaða frá prentmiðlum til netmiðla er að margra mati of sein á ferðinni og þessir miðlar hafa látið hjá líða um árabil að notfæra sér netið til áskriftar en í stað þess einblínt um of á auglýsingatekjur á netinu.  Nú er svo komið að leitarvélarnar og önnur vefsvæði sem gera út á vefauglýsingar eru farnar að taka verulegan hlut af heildar auglýsingatekjum á markaðnum og prentmiðlarnir hafa ekki fylgst nægilega vel með þeirri þróun og ekki aðlagað sig að breyttum aðstæðum.  Þeir hafi því misst af lestinni og það verði erfitt fyrir þá að ná sér á strik fjárhagslega eftir að þeir breyta um miðil.

Fréttamenn eru margir hverjir uggandi um sinn hag og telja að netfréttamiðlar geti ekki haldið uppi sömu gæðum í fréttamennsku og prentmiðlarnir hafa gert.  Þetta muni koma niður á fréttaflutningi í heild, en prentmiðlar hafa löngum þótt flytja ýtarlegri fréttir heldur en ljósvakamiðlar, þar sem það sem ég kalla fréttasölumennska lendir oft ofan á.  Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig þessu vindur fram næstu árin.


mbl.is Bandarísk blöð skera niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband