Loftsteinar

Mér finnst þetta athyglisvert framtak hjá rússum.  Fyrr eða síðar mun koma að því að lífi á jörðinni verði ógnað af árekstri loftsteina og með þessu framtaki væri hægt að prófa mismunandi úrræði til að kanna hvað hentar best til að beina loftsteinum á nýja sporbraut sem ekki ógnar jörðinni.  Þar sem hættan er lítil á að þessi loftsteinn rekist á jörðina þá er hann tilvalið tilraunadýr þar sem hann verður mjög nálægt og hægt verður að beita þeirri tækni sem tiltæk er til að reyna að hafa áhrif á hann.  Þessi steinn er líka tiltölulega lítill svo það ætti að vera auðveldara að hnika honum til og þar með fá dýrmæta reynslu sem getur nýst þegar stærri loftsteinar koma í heimsókn.

Kveðja,


mbl.is Rússar vilja bjarga jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arngrímur Stefánsson

Sjálfur ætlaði ég að skrifa útá þessa frétt enn þú varðst mér fyrri til, því þetta er nákvæmlega það sem ég ætlaði að skrifa. 

Reynslan mun vera dýrmæt þótt vel takist upp eða ekki. 

Arngrímur Stefánsson, 31.12.2009 kl. 17:29

2 identicon

Eiga að vera sprengju/kjarnaoddar um borð í flauginni?

Og ef þeir hitta ekki; mun þá eldflauginn halda áfram eða hrapa til jarðar (ósprungin)?

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 17:49

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Jón,

Í fréttinni segir að kjarnorkusprengjur séu ekki hluti af lausninni.  Megnið af þessum loftsteinum eru ekki eiginlegir steinar eins og við þekkjum þá, grjóthrúga á flugi er sennilega betri lýsing.  Því hafa sprengjur ekki þótt sérlega góð lausn því þær gætu hugsanlega aðeins dreift hrúgunni svolítið en ekki breytt stefnu hennar.  Væntalega yrðu þessar tilraunir gerðar meðan steinninn á enn langt eftir til Jarðar þar sem smávægilegar breytingar í stefnu hefðu lítil áhrif ef steinninn væri of nálægt.  Það verður áhugavert að fylgjast með því hvaða tækni þeir koma sér saman um, þar sem enginn hefur í raun góð ráð um hvernig eigi að færa eitthvað til sem vegur milljónir tonna, sérstaklega ekki í geimnum.

Það er hægt að lesa um þennan loftstein á http://en.wikipedia.org/wiki/99942_Apophis 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 31.12.2009 kl. 18:42

4 identicon

Góðan dag og gleðilegt ár.

Þótt að þessi  grjóthrúga sé ekki nema ca 450 x 350 metrar á lengd og breidd, þá er sprengikrafturinn við hugsanlegan árekstur alveg gífurlegur. Svona bombur eins og Tungulska (loftsteinn, allt að 10 mt) eða Krakatá (ca 200) eru eins og hvellhetta miðað við sú ósköp sem yrðu ef þessi hæfði (880 mt). Er því alveg ástæða til að skoða málið.

Hann er talinn fara mjög nálægt, eða ekki lengra frá en svo en þreföldu þvermáli jarðar. Það er svona eins og ryk-korn sem þeytist 3 byssukúlu-þvermál frá byssukúlunni, sem er nógu nálægt til að hafa áhyggjur af.

Það undrar mig nokkuð að það sé ekki inni í myndinni að sprengja grjótið, því að það yrði nægur tími fyrir margar tilraunir. Nú þekki ég ekki hvernig vetnisbomba myndi virka í geimnum, en sú stærsta sem hefur verið sprengd (50 mt) myndi auðveldlega gleypa og steikja þetta malarhlass (5 mílna þvermál á eldhnetti vs kvartmílan), og sú var sprengt fyrir áratugum. Við kunnum nú að búa til bombur og jafnvel að hæfa loftsteina, en höfum enga reynslu í að þvinga þá til að breyta um stefnu. Praxix versus theory. Klórar maður því sér í haus, og það á nýársdegi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 14:26

5 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Það væri týpískt ef þetta fikt yrði til þess að stefna hrúgunni á Jörðina.

Páll Geir Bjarnason, 2.1.2010 kl. 02:57

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Jón,

Vandmálið við sprengjur - a.m.k. við stærri loftsteina eins og t.d. Chicxulub loftsteininn (http://en.wikipedia.org/wiki/Cretaceous%E2%80%93Tertiary_extinction_event) sem margir telja helstu orsök fyrir útdauða forneðlanna, þá þyrfti að koma þessum sprengjum fyrir undir yfirborðinu til að áhrifanna gætti og þá væri eins hugsanlegt að steininn bara brotnaði í tvennt eða nokkra hluta sem hver um sig gæti enn valdið mjög miklu tjóni.  Sprengja sem springur í lofttómi hefur tiltölulega lítil áhrif í kringum sig vegna þess að það er ekkert andrúmsloft til þess að þrýsta á en getur verið nóg til að beina loftsteininum af braut sinni ef nógu margar eru notaðar í röð hver eftir aðra.  Annars fann ég grein á wikipedia sem er með nokkuð góðar upplýsingar fyrir áhugakalla eins og okkur (http://en.wikipedia.org/wiki/Asteroid_mitigation_strategies)

En ég vildi benda þér á að sprengingin í Krakatoa 26-27 Ágúst 1883 var vegna eldgoss, ekki loftsteins.  Þetta var eitt öflugasta gos í sögunni og sprengdi megnið af eldfjallaeyjunni í loft upp.  Þetta var margfalt öflugra gos heldur en það sem sundraði Mt. St. Helen árið 1980.  Nú eru að byggjast nýjar eyjur þarna þar sem Krakatoa var, sem hafa hækkað að meðaltali um 13cm á viku frá 1950.  Eftir einhver hundruð ár þá á þetta nýja land sjálfsagt eftir að springa aftur.  Þetta eldfjall er þekkt fyrir gífurlega öflug sprengigos. 

Páll:  Það er alltaf hættan og því best að prófa þetta á einhverju sem er ekki mjög stórt;)  Þessi steinn er aðeins um 270 metrar í þvermál samanborið við um 10Km fyrir Chicxulub.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 2.1.2010 kl. 17:46

7 identicon

Ég var nú aldrei með hugann við efnið í grunnskóla og getur því vel verið að ég fari með fleipur, en það er munur á "loftsteini" annars vegar og "geimsteini" hins vegar. 

Annar er enn úti í geimi en hinn er þá þegar í gufuhvolfi Jarðar.

Nonni (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 18:47

8 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Nonni,

Hmm...  Ég hef aldrei heyrt talað um "geimstein" nema í sambandi við upptökuver Rúnars Júl;)  Eftir að hafa skoðað þetta hjá ritmálasafni Háskólans þá virðast geimsteinar vera notað yfir það sem á ensku er kallað micro-meteorite, en loftsteinar það sem er kallað á ensku meteorite.  Ég ætla svo sem ekki að sverja fyrir þessa skilgreiningu;)  Á ensku er gerður greinarmunur á meteor og meteorite.  Síðarnefna orðið á við loftsteina sem hafa hrapað til jarðar, þ.e. raunverulegan stein, en meteor á við þá sem eru úti í geimnum eða eru á leið í gegnum lofthjúp jarðar (þ.e. stjörnuhröp).  Þetta er hálfruglingslegt í báðum tungumálum!  Þú hefur mjög líklega rétt fyrir þér að geimsteinn á við grjót sem fellur til jarðar án þess að brenna upp, en loftsteinn á við það sem er enn úti í geimnum eða sem kemur í gegnum gufuhvolfið.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 2.1.2010 kl. 21:36

9 identicon

Heyr heyr fyrir áhugavert blogg og umræðu sem mér þótti bæði skemmtileg og fræðandi að lesa. Sjaldséð á MBL bloggi!

Örn Orri (IP-tala skráð) 7.1.2010 kl. 21:46

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband