Færsluflokkur: Bloggar
4.8.2019 | 16:44
Stóra málið...
"Stóra málið er að sjálfsögðu það að persónunefnd komst að því að þetta væru ólöglegar upptökur"
Þetta sýnir best hversu víðsfjarri raunveruleikanum þetta fólk er! Stóra málið er að það lét orð falla, sem ekki nokkur einsti maður ætti að gera, fullir eða ófullir. En þetta fólk skilur ekki einu sinni um hvað þetta snýst. Ég hafði mikla trú á Gunnari Braga áður en Klausturmálið komst upp. Fannst hann athugull, skarpur í málflutningi og koma vel fyrir. Eftir þetta gæti ég ekki hugsað mér einu sinni að vera námunda við neitt af þessu fólki! Hef megna óbeit á svona framkomu og gæti aldrei liðið fólk, sem yrði uppvíst að henni.
En UPPHAF þessa máls, illrætnar umræður og róbgurður um samstarfsfólk og aðra, er það sem málið snýst um. Allt þeirra mál snýst um að þetta fólk varð uppvíst að ólíðandi framkomu. Og þá er keyrt á boðberann. Raunverulega málið skiptir ekki máli, bara að það komst upp um liðið. Áfram haldið á sömu braut og allt málið sett í þann farveg að þetta fólk séu fórnarlömb og formaður flokksins hefur gengið milli manna grátandi um hversu mikið fórnarlamb hann er.
Allir, sem eru með vott af siðferðiskennd hefðu séð sóma sinn í því að hverfa hljóðlega á braut. En þess í stað er djöflast eins og naut í flagi til að gera lítið úr RAUNVERULEGA málinu og drepa því á dreif með orðaskaki, enn meiri gróusögum og óstaðfestanlegum rógburði. Ég myndi ekki ráða neitt af þessu fólki sem flórmokara hvað þá meira. Treysti þeim ekki til eins né neins. En það er fullt af fólki, sem finnst þetta gott mál og í hvert skipti sem siðblindan kemur upp, þá eykst fylgi þessa fólks. Vælið í þessu fólki heldur áfram og þau þykjast vera fórnarlömb! Af því að upp komst um ummæli, sem eru ekki nokkrum manni sæmandi. Þau skilja ekki að þau voru GERENDURNIR! Þau urðu "fórnarlömb" af því það komst upp um þau! Það skiptir engu máli hvort upptakan var lögmæt eða ekki. Upptakan er aukaatriði, sem eingöngu sýndi framá framkomu þessa fólks. Framkoman og ummælin eru stóra málið. Ekki aukaatriðin, sem þetta fólk er að hengja sig á til að gera sig að fórnarlömbum.
Kveðja,
Ekki óeðlilegt að tónninn sé grimmari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2019 | 16:27
Ísland selt!
Maður veltir fyrir sér hvort að einhver sé vakandi í brúnni á Íslensku þjóðaskútunni. Nýlega seldi Icelandair Group 75% hlut í hótelkeðjunni á rúmar hundrað milljónir dollara til Asíu með vilyrði fyrir að selja alla hlutina innan 3ja ári ef ég man rétt. Þetta eru 25 milljarðar eða svo af ferðaþjónustu, sem er verið að selja úr landi. Arðurinn af þessum rekstri verður alveg pottþétt ekki eftir á Íslandi!
Allt dót úr búi Wow hefur verið selt umdeildum og vafasömum fjárfestum hér í Bandaríkjunum. WAB verður örugglega tætt niður af niðurrifsmönnum, alveg eins og Wow og hræið selt einhverjum erlendis. Smátt og smátt er verið að saxa Ísland niður á erlenda auðjöfra. Laxveiðiréttingi Íslenskra laxveiðiáa seldur úr landi. Þær tekjur verða ekki eftir á Íslandi. Gulleggin seld, hvert af öðru og allir í dótakassanum. Hvenær ætlar brúarvaktin að vakna af Þyrnirósarsvefni sínum og gera EITTHVAÐ?
Stjórnmálamenn jarma í hvert skipti sem þetta kemur í fréttir að það þurfi að gera eitthvað. En enginn gerir neitt. Allir uppteknir að fylgjast með furðuverkinu í Hvíta Húsinu á Twitter eða Kim Kardashian á Instagram! Eða bíða eftir updeiti á Miðflokksmönnum og hvar þeim dettur í hug að gaspra eitthvað innantómt þvaður? Eða hvað??? Svo er andskotast yfir örfáum hræðum, sem minnst mega sín og vilja vera á Íslandi og þjösnast í að koma þeim úr landi á meðan erlendir auðkýfingar kaupa landið upp! Allt fór í fár þegar Kínverji vildi kaupa land - en allt í lagi að Breti geri það? Hvað er eiginlega að hjá þessu fólki, sem þykist vera að stjórna landinu?
Bara skil ekki svona hugsunarhátt!
Kveðja að westan!
Ratcliffe bætir við sig jörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2019 | 22:27
Röklaus uppsögn
Uppsögn kjarnorkusamningsins við Íran er sennilega versta ákvörðun núverandi stjórnar Bandaríkjanna og er þó af nógu að taka. Þetta var ekki fullkominn samningur og kannski var hann vondur, en hann hélt vörð um kjarnorkukapphlaup í miðausturlöndum! Nú er það úr sögunni. Trump hefur verið með hótanir um hvað muni ske ef Íranir halda sig ekki við samninginn. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, eitthvað sem Trump skilur ekki.
Bandaríkin töpuðu öllum áhrifamætti á samninginn um leið og þau sögðu sig frá honum, svo enginn tekur mark á okkur lengur hvað varðar þennan samning. Þetta hefur líka orðið til þess að efla vantrú á Bandaríkin. Þau hafa sagt sig frá hverjum alþjóðasáttmálanum á fætur öðrum og með því hefur traust á það sem Bandaríkin semja um farið verulega þverrandi út um allan heim.
Hver, sem ástæðan var, þá var hún ekki grundvölluð á rökum eða fyrirhyggju. Svo mikið er víst.
Kveðja að westan.
Samningnum rift til að skaprauna Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.6.2019 | 15:58
Stórhættulega fólkið
Þetta er fólkið, sem samkvæmt Trumpistum bæði hér í Bandaríkjunum og á Íslandi og víðar er stórhættulegt. Krakkar, sem voru teknir frá foreldrum sínum, foreldrarnir margir sendir úr landi án barnanna og sálarlausir hálfvitar röfla um að þetta sé þeim sjálfum að kenna. Ég vona að þetta lið þurfi aldrei að reyna á sjálfum sér hvað það er að vera flóttamaður og því síður yfirgefin börn, sem mörg hver enda í mannssali, vændi eða þaðanaf verra. Þetta skítur lítið upp á Trump, en afi hans hagnaðist vel á manssali og vændi í Yukon. Þaðan kom grunnurinn að ríkidæmi Trump fjölskyldunnar.
En þessi meðferð á saklausum börnum er í boði þeirra, sem jarma hæst um hvað réttur ófæddra barna er mikill. Eftir að þau eru fædd geta þau farið til fjandans. Hræsnin drýpur af þessu rugli og maður sér þessa sömu afstöðu á Íslandi.
Kveðja,
Gátu ekki sofið fyrir hungri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.4.2019 | 04:47
Skrýdd lík???
Úr fréttinni:
"Voru þar jarðneskar leifar karlmanns og konu, skrýddar útivistarfatnaði."
Hverskonar kjaftæði er þetta? Það er hver fréttin á mbl.is og öðrum miðlum, sem er óskiljanleg þvæla þar sem bersýnilegt er að höfundar virðast ófærir um að skilja eða tjá sig á neinu tungumáli! Fréttir teknar upp úr erlendum fjölmiðlum, rennt í gegnum Google Translate og ekki einu sinni nennt að tékka stafsetningu og svo skellt á netið. Frumarkalestur gersamlega horfinn, ekki til vottur af metnaði í einu né neinu.
Lengi getur vont vernsað!
Kveðja,
Tvö lík fundust í Þrándheimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.3.2019 | 19:37
Milljónaverkið
Eins og allir heilvita menn vissu þá var þessi prentun eign Jóns. Hann lét prenta hana á eigin kostnað og var kannski 50 þúsund króna virði þegar prentun og sendindingarkostnaður er meðtalinn! Einhver básúnaði út að þetta væri milljóna virði og allt varð vitlaust. Þá var hægt að kaupa eftirprentun af þessu sama verki á amazon.com fyrir innan við 20 dollara ef ég man rétt. Hefði ekki verið betra að hugsa og skoða málið? Það datt engum í hug! Bara böðlast áfram eins og naut í flagi með lokuð augu og eyru!
Kveðja,
Var heimilt að fjarlægja verkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2019 | 21:38
Moldin í logninu
Mér finnst nú moldin rjúka hátt í stafalogninu þegar æðstimunkur Miðflokksins vænir aðra um "ógeðfellda" framkomu, eftir það sem á undan er gengið meðal klausturbúa. Þingmaður Pírata getur etv borið fyrir sig háværum bremsuhljóðum í sölum Alþingis og sagst hafa sagt eitthvað allt annað...
Kveðja,
Sagði framgöngu Pírata ógeðfellda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.2.2019 | 22:26
Kemur engum á óvart
Hvernig á annað að vera þegar stór hluti af sætaframboði frá Bandaríkjunum er kippt út? Hvað héldu menn að myndi gerast? Auðvitað minnkar sætaframboð þegar dregur úr sætaframboði! Aðilar í þjóðfélaginu sáu sér hagi í því að djöflast í Wow eins og naut í flagi þegar þeir voru á viðkvæmu stigi í endurfjármögnun á félagi, sem hafði vaxið mjög hratt og hafði í raun vaxið sjálfu sér yfir höfuð.
Icelandair er á brauðfótum og hefur verð félagsins fallið úr 38,9 í apríl 2016 niður í 6,53 í október 2018 en hefur rétt aðeins úr kútnum og stendur nú í 8,58. Það er 83% fall í lægsta verð í október og 78% lækkun í dag. Þessi slæma staða beggja félaga hlýtur óhjákvæmilega að koma niður á rekstri og þar með sætaframboði. Nú er eins og menn séu steinhissa á því að mikill samdráttur skili sér í miklum samdrætti á sætaframboði!
Kveðja,
Sætaframboð til Bandaríkjanna hrynur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2019 | 16:34
Sannleikurinn alltaf fyrsta fórnarlambið
Segir máltækið. Það stenst ekkert af fullyrðingaflóði forsetans um málefni landamæravörslu. Ef það er neyðarástand af hverju var þá Landamæragæslan og Heimavarnarráðuneytið efst á lista forsetans yfir þær stofnanir, sem ættu að loka eða draga mest úr starfsemi þegar ríkið var sett í fjárlagahnút í desember?
Nýlega fullyrti Trump að ólöglegt Fentanyl (veit ekki hvað þetta lyf er kallað á íslensku) kæmi allt eða mest frá Mexíkó og því þyrfti vegg. Hið rétta, skv. Fíkniefnaeftirliti, Landamæraeftirliti og löggæslu er að stærsti hluti þess sem kemur utanfrá kemur frá Kína og Kanada. Talsvert kemur frá Mexíkó, en það kemur í gegnum landamærastöðvar og yfirvöld telja hverfandi magni smygglað inn utan landamærastöðva. Fentanyl er svo dýrt og í svo litlu magni ef það er hreint að engum dytti í hug að senda smyglara yfir landamærin í óvissuferðir gangandi jafnvel tugi kílómetra!
Kanada og þá sérstaklega Breska Kólumbía (BC) hefur átt við mikinn Fentanyl vanda að stríða undanfarin ár og í BC voru um 2 þúsund dauðsföll vegna efnisins í fyrra, muni ég rétt. Ekki þarf nema nokkur milligrömm af hreinu Fentanyl til að leiða til ofnotkunar og dauða. Fyrir 2 árum eða svo uppgötvaði lögreglan að hluti af efninu kom í einföldum bréfapósti frá Kína. Pappír var steypti í upplausn með Fentanyl, pappírinn síðan þurrkaður og þá sat Fenranylið eftir. Pappírinn var svo notaður til sakleysislegra bréfaskrifra!
Ýmsar stofnanir á hægri vængnum, sem enn hafa svolítið af sjálfstæðri rökhugsun hafa bent á tilgangsleysi veggja á landamærum yfirleitt og sérstaklega á suður landamærum Texas! Þar þarf að taka mikið land eignarnámi á hrjóstrugu vatnasvæði Rio Grande. Núverandi landamæravarsla er sumstaðar tugir kílómetra frá landamærunum, sem markast af Rio Grande ánni frá El Paso í Vestur Texas til Brownsville við Mexíkóflóa.
Þó land sé ódýrt á svæðinu þá er Texas búum ekki eins illa við neitt og að gefa eftir land, jafnvel þó þeim sé borgað fyrir það. Hluti af því eru form lög sem gefa fólki hefðarrétt á landi, til afnota og jafnvel eignarhald ef það getur sýnt fram á notkun án afskipta eiganda og án merktra landamerkja. Þessvegna er nánast allt land í Texas innan girðingar! Það verður áratugarins þrautaganga að komast í gegnum Texas og á landamærunum er fjöldi opinberra landeigenda, m.a. alríkið sjálft, Texas ríki, háskólar og þar fram eftirrétt götunum. Oft á tíðum yrði að byggja vegg eða virðingu langt frá Rio Grande vegna fjallendis og landeigendur myndu þá annað hvort tapa landinu (margir myndu frekar selja frumburði sína!) eða fá aðgang og þá um leiðber farið að opnast hópur.
Eins og margir hafa bent á þá hafa menn enn ekki byggt veggi sem eru svo háir að ekki hafi fundist smiðir sem gátu smíðað lengri stiga! En sumt fólk vill ekki skilja þetta. En eins og kollegi minn sagði stundum þá er þetta lógik fyrir búrhænur, sem honum fundust ekki sérlega rökrænar! En búrhænur hafa ráðið þessari umræðu og það kemst ekkert vitrænt að fyrir hænsnagaggi. En mikið er maður orðin þreyttur á þessum hænum og rænulausu ruglinu, sem vellur upp úr þeim!
Kveðja
Lagaheimild forsetans ekki skýr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2019 | 10:20
416 þúsund dollarar á ári
Er það sem einn bankastjórinn fær. Það er 16 þúsund dollurum meira á ári en fastalaun forseta Bandaríkjanna! Hvað þarf Íslenska ríkið og þar með skattgreiðendur að borga mörgum Bandaríkjaforsetum laun fyrir að reka örbanka norður í Ballarhafi? Það sást í hruninu 2008 að allt talið um há laun fyrir mikla ábyrgð var óráðshjal enda vildi enginn þessara stjórnenda taka ábyrgð á einu eða neinu þegar á hólminn var komið. Ekkert þeim að kenna. Þeir flutu bara óvígir og ósjálfbjarga að feigðarósi.
Kveðja,
Kjörin í samræmi við starfskjarastefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |