Banki skuldar banka...

Gamla Kaupþing skuldaði Nýja Kaupþingi, svo í stað þess að borga á ákvað Gamla Kaupþing að kaupa meirihlutann í Nýja Kaupþingi.  Nú er alveg kjörið fyrir þá sem skulda bönkunum að semja við þá um að í stað þess að borga skuldinir sínar, þá ætli þeir bara að fá hlut í bankanum.  Klappa svo á öxlina á bankastjóranum og segja "Þetta lagast allt saman" 

Ætli þeir hafi fengið lánað fyrir þessu hjá Gamla Landsbankanum???  Þetta hljómar allt svo afskaplega einfalt og kristaltært, alveg eins og bergvatnsáin í sveitinni í gamla daga, en einhvernvegin bögglast það fyrir mér hvernig líkið getur nú allt í einu risið upp, hlaupið út í búð og keypt sér kistu...  Þarna eru snjallir menn innan búðar...  Ætli þeir gangi um í lökum???

Kveðja,

 


mbl.is Gamla Kaupþing skuldaði Nýja Kaupþingi fjármuni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar eignast banka

Ég verð nú bara að viðurkenna algjört skilningsleysi mitt á þessari stöðu.  Ríkið yfirtók hreyturnar af þessum þremur bönkum í Október 2008 og skildi restina eftir í gömlu bönkunum.  Nú allt í einu er komin líftóra í hræin af gömlu bönkunum og þeir eru að eignast ráðandi hlut í því sem ríkið yfirtók.  Á dögunum var sagt frá því að ekkert væri því til fyrirstöðu að bankarnir (nú veit ég ekki hvort var átt við líkin í kistunni, eða líkin upprisnu) gætu farið til útlanda með útibú og farið að safna peningum þar - sbr. IceSave.  Ætlar ríkið að láta það viðgangast að líkin rísi upp og búi til annað IceSave ævintýri svo hægt sé að ganga endanlega frá þessum ræfli sem eftir er af Íslandi? 

Er Ísland á góðri leið með að verða fyrsta og eina ríkið sem fer inn í ESB sem algjörlega uppþurrkað og gjaldþrota dæmi sem verður bara tekið upp í skuld og dettur síðan upp fyrir einhversstaðar á bak við þil í Brussel. 

Eða er þetta Nýja Ísland sem rís upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix og lætur sem ekkert hafi í skorist - fer bara í næsta víking og þurrkar upp bankabækur Evrópubúa á nýjan leik.  Nú ef við komumst inn í ESB, þá er kominn aðgangur að allri Evrópu og hægt að gera enn stórkostlegri gjaldþrot með því að leggja allt ESB undir - það verður eitthvað annað en þegar var bara spilað með Ísland sem er nú svo lítið að varla tekur tali.  Með ESB munu þessir íslensku heimsfjármálaspekúlantar virkilega komast í feitt og geta spilað hátt...  Ég bara hreinlega botna ekki þessi banka fræði;) 

Kveðja,


mbl.is Skilanefndir eignast tvo banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankasala

Ég held að sala Landsbankans og Búnaðarbankans hljóti að teljast með stærstu afglöpum í einkavæðingu á vesturlöndum um áratugi ef ekki aldir.  Mér finnst vera stór spurning er hvort þeir embættismenn sem sömdu um þetta ferli á sínum tíma eigi ekki að sæta forgangsrannsókn sérstaks saksóknara fyrir afglöp í starfi.  Það eru ekki bara kaupendurnir sem rústuðu þessu dæmi, seljendurnir hafa stóra ábyrgð líka fyrir að selja þetta til aðila sem auðsjáanlega höfðu enga reynslu né þekkingu á bankarekstri og höfðu ekki fjármagn til þess að kaupa bankana.  Hversvegna voru ekki hlutabréf í bönkunum seld á almennum markaði í stað þess að selja þá útvöldum aðilum sem síðan hvorki vissu hvað þeir voru að gera né höfðu bolmagn til þess að kaupa bankana?  Þeir sem stóðu á bak við þetta eru að mínu mati sekir um alvarlegt dómgreindarleysi og hrein afglöp í starfi og ættu skilyrðislaust að sæta ábyrgð fyrir dómstólum.

Það er alveg með eindæmum að þessir bankar sem voru seldir á slikk til aðila, sem gátu síðan ekki staðið í skilum með afborganir af þeirra eigin lánum fyrir kaupverðinu, hafi síðan komið Íslandi á vonarvöl með hverju afglapaverkinu á fætur öðru.  Ég bara kemst ekki yfir að þessir menn hafi ekki haft döngun í sér til þess að greiða þessar skuldir og koma þessum fyrirtækjum svo gersamlega í rúst að það er leitun að öðru eins.  Enron er það eina sem kemur upp í hugann hjá mér. 

Þessi endaleysa með krosstengslum og lánum byrjaði sem sagt ÁÐUR en sölu bankanna var lokið - það var byrjað á því að lána í kross til þess að kaupa bankana og svo var bara haldið áfram og ný fyrirtæki stofnuð sem var svo lánað úr bönkunum til þess að kaupa í öðrum félögum og þar með hækka eignir án þess að nokkur skapaður hlutur stæði á bak við þetta.  Það var hvorki fjármagn né eignir á bak við sölu bankanna heldur einungis lán frá þessum sömu bönkum til þeirra aðila sem keyptu þá.  Þetta dæmi verður einfaldlega fáránlegra og fáránlegra með hverjum degi sem líður. 

Hvar voru dagblöðin og blaðamenn síðasta áratuginn?  Hvar voru eftirlitsaðilarnir?  Voru allir keyptir til þess að þegja?  Voru allir sofandi á vaktinni? 

Kveðja,


mbl.is Dýrt fyrir ríkið að selja banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankakaup

Það er eitthvað sem bara ekki passar í þessu púsluspili!  Björgólfsfeðgar fengu 6 milljarða lán frá Kaupþingi til að kaupa 45,8% hlut í Landsbankanum 2003.  Svo sem ekkert óeðlilegt við það miðað við allt annað, en það sem stendur uppúr þessu er að á þessum 6 árum hefur þeim ekki tekist að greiða þessa skuld upp eftir allt góðærið, gróðann og hundrað milljarðana sem eignahlutur þeirra í Landsbankanum var metinn á áður en allt fór yfirum, ef ég man þessar tölur rétt!

Á endanum snýr þetta þannig við mér að þeir fengu lán, sem þeir borguðu ekki, til að kaupa banka sem fór svo ævintýralega yfirum, ásamt hinum tveimur, að allt fjármálakerfi vesturlanda nötraði og skalf stafna á milli mánuðum saman.  Þetta dæmi altsaman gengur bara enganvegin upp fyrir mér, hvernig sem ég sný þessu.

Borgarastyrjöld?  Yrði ekki hissa!

Kveðja,

 


mbl.is Varar við borgarastyrjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðilar ekki sammála um dómstólaleið

Í frétt á ruv.is (http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item288630/) er sagt að Svavar Gestson formaður íslensku IceSave samninganefndarinnar hafi sagt "...að dómstólaleiðin sé ekki tæk í málinu þar sem báðir málsaðilar séu ekki sammála um að fara með málið fyrir dóm."

Nú þekki ég akkúrat ekki neitt til alþjóðalaga og alþjóðasamninga en ég hef aldrei heyrt um að ekki sé hægt að fara fyrir dómstóla með mál vegna þess að deiluaðilar eru ekki sammála um að fara með málið fyrir dóm.  Mér virðist hinsvegar það vera venjan að mál fari fyrir dómstóla vegna þess að deiluaðilar geta ekki komist að samkomulagi.

Ég hef plægt aðeins í gegnum IceSave samninginn eins og hann var birtur á dögunum og eitt sérstaklega sem stingur í augu er að þessi samningur er milli Íslands annars vegar og stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi hinsvegar.  Hann er EKKI við íslensk stjórnvöld, heldur Ísland.  Ísland er hinsvegar landið sem íslendingar búa á og þar sem íslensk stjórnvöld starfa.  Samningurinn er ekki við Bretland og Holland, heldur bresk og hollensk stjórnvöld. 

IceSave samningurinn er slæmur gjörningur, en hinsvegar er vandséð hvaða aðrar leiðir eru færar í stöðunni.  Íslensk stjórnvöld, hvar í flokki sem þau hafa staðið undanfarin 10 ár, eru samábyrg fyrir þessum endalausu klúðrum sem orsökuðu hrun bankanna.  Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið brugðust eftirlitsskyldu sinni.  Ég held að enginn, ekki einu sinni Davið Oddson, geti verið ósammála því.  Seðlabankinn og Davíð gerðu athugasemdir við stöðu bankanna í óbirtum plöggum, en opinberlega var allt í góðu lagi.  Stjórnvöld gerðu akkúrat ekki neitt til að bregðast við þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp á alla vegu.  Að mínu mati hafa stjórnvöld ENN lítið sem ekkert gert til þess að bregðast við þessu. 

Núverandi ríkisstjórn gat komið fram skilyrðum fyrir IceSave og sett pressu á Breta og Hollendinga.  Þeir þurftu ekki að lúffa gersamlega eins og þeir hafa gert.  Eitt af þeim skilyrðum hlaut að vera að málshöfðanir gegn Tryggingarsjóði og íslenskum  stjórnvöldum vegna IceSave yrðu ekki mögulegar, hvorki af hálfu viðkomandi ríkja eða einstaklinga eða fyrirtækja í þessum löndum.  Ef ég skil IceSave samninginn rétt þá er Tryggingasjóður skuldbundinn til að greiða allt að 20,887 evrur og restin fellur á stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi.  Ef einstaklingar og fyrirtæki geta síðan hafið lögsókn gegn íslenskum stjórnvöldum vegna skulda gömlu bankanna, þá er þessi samningur algerlega gagnslaus. 

Það er sárt að horfa upp á ástandið á Íslandi séð utan frá.  Menn hljóta að spyrja sig hvernig í ósköpunum þetta gat gerst.  Ég hef ekki svar við því en ég er sannfærður um að þegar farið verður að grafa í þessi endalausu krosseignatengsl fyrirtækja og banka á Íslandi þá hlýtur að koma að því að það þarf að moka flórinn.  Það er ekki eðlilegt eins og í dæminu um Sterling að fyrirtæki sem er rekið með tapi og rambar á barmi gjaldþrots í fleiri ár gangi kaupum og sölum og HÆKKI í verði úr 4 í 20 milljarða á 2 eða 3 árum.  Ég fæ það dæmi engan vegin til að ganga upp! 

Svo hrundi öll þessi spilaborg, því það var allt sem hún var.  Það voru engar raunverulegar eignir á bak við stóran hluta viðskipta á Íslandi síðastliðin 10 ár - þetta voru peningar á pappír sem ekkert gildi höfðu og var haldið í verði með endalausum kaupum á hlutabréfum sem voru fjármögnum með lánum tryggðum í hlutabréfum sem höfðu enn ekki hækkað í verði en var fyrirséð að myndu hækka vegna eftirspurnar þegar lánsféð var notað til að kaupa bréf.  Þetta var, vitandi eða óvitandi, byggt upp eins og hver annar pýramídi og eins og Egypsku bræður þeirra var hann byggður á sandi.  

Einhverntíma árið 2007 fór svo að flæða að og þá byrjuðu hornsteinarnir að grotna.  Síðasta sumar komust menn svo að því að þetta var ekki pýramídi heldur sandkastali og háflóð var á næsta leiti.  Í Október brotnuðu svo öldurnar og þá varð ekkert eftir!  Nú eru öll þessi pappírsfyrirtæki farin yfirum og eftir liggur slóð upp á fleiri hundruð milljarða í tapaðar skuldir því það var engin trygging fyrir þessum skuldum sem bjó til stærstan hluta af eignasafni gömlu bankanna.  Gömlu bankarnir tæmdir og ekkert stendur eftir.  Eimskipafélag Íslands, óskabarn þjóðarinnar, rambar á barmi gjaldþrots og óskaði eftir nauðasamningum fyrir nokkrum dögum síðan.

Slæmt mál, hvernig sem á það er litið.  En íslendingar eru sterk þjóð sem hefur gengið í gegnum erfiða tíma áður og ég efast ekki um að okkur tekst að komast út úr þessu.  En það verður á brattan að sækja og þjóðin þarf að standa saman þó erfitt sé.  Öll sú pólitík sem hefur litað þetta mál frá upphafi dregur aðeins úr mikilvægi þess.  Þetta er ekki pólitísk mál, þetta er afbrotamál og   þar eru réttarfarshagsmunir og sjálfstæði þjóðarinnar í veði.

Kveðja frá Port Angeles


Að berja höfuðið í steininn

Það virðist sem það eina sem ég blogga um hérna er slæmt málfar á mbl.is.  Ég er svosem ekkert málfarsséní, en þegar villurnar beinlínis hrópa á mann af skjánum þá get ég bara ekki orða bundist!

Í þessari frétt segir: 

"...í stað þess að berja höfuðið í steininn"

Ég veit ekki af hvaða tungumáli þessi frétt var þýdd, en svona orðalag á ekki heima í íslensku!  Það er talað um að berja höfðinu við steininn, ekki í steininn.  Þar fyrir utan ætti að nota "höfðinu" ekki "höfuðið" með "í steininn" 

Mbl.is getur gert betur en þetta!

Kveðja


mbl.is Palin hættir sem ríkisstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pappírshækkanir

Hér einu sinni var talað um "hækkun í hafi" þegar Boxít til íslenska álversins hækkað skyndilega á leið sinni frá Ástralíu.  Mér sýnist að í þessu Sterling dæmi sé e.t.v. hægt að tala um "hækkun á flugi"

Hér er ekki að sjá að neinskonar röksemdir séu á baki þess að Sterling hækkaði í verði.  Félagið virðist hafa verið rekið sem tapi og ekkert sem ég hef séð bendir til að þetta fyriræki hefði átt að hækka í verði, heldur frekar lækka ef eitthvað er.  NTH er búið til af eigendum Sterling og síðan selja þeir Sterling til NTH fyrir 20 þúsund milljónir en ekkert bendir til að félagið hafi verið meira virði en þegar Fons keypti það á 4 þúsund milljónir nokkrum árum áður.  Þessir 12 þúsund milljónir eru einfaldlega peningar á pappír sem hafa aldrei verið til.  Hinsvegar virðist em 17 þúsund milljónir í reiðufé skipti um hendur án þess að neitt komi í staðin nema hækkun Sterling "á flugi".  Mér sýnist á öllu að hér sé þörf ástæða til rannsóknar á því hvort um peningaþvætti hafi verið að ræða.

Kveðja 


mbl.is Ákvæði féll niður við kaup NTH á Sterling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orða vant...

Í þessari frétt segir:  "Þessi mynd var tekin þegar."  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tek eftir því að botninn vantar í setningar á mbl.is.  Mbl.is getur gert betur:)

Kveðja,

 


mbl.is Ella lífgar uppá Brákarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sævar???

Þetta er í ananð skiptið í dag sem ég finn að fréttum á mbl.isShocking  Ekki vegna þeirra skoðana eða frétta sem eru settar fram, heldur vegna þess að það vantar búta í fréttirnar sem gagnlegt eða amk. gaman væri að hafa með.

Í þessari frétt er ritað: "Sævar segir sérfræðingana..." 

Ekkert út á það að setja, en það er ekkert meira um hvaða Sævar er talað við!  Mbl.is getur gert betur en þetta.

Ég er lítið kunnugur staðháttum í Geithúsárgilinu en hef þó gengið þar upp með gamla skálanum sem þar var og var notaður m.a. sem heyhlaða.  Rámar í að þarna hafi verið ýmislegt af gömlu stríðsáradóti þarna út um allt svo það kemur ekki á óvart að vafasamir hlutir frá þeim tíma finnist þarna. 

Kveðja,


mbl.is Búið að eyða hættulegri sprengju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hauslaus frétt

Enn einu sinni vantar haus á þessa frétt sem setur fréttina á samhengi.  Fréttin á mbl.is byrjar þannig:

"Nefndin hefur nú tekið formlegar skýrslur af alls  26  einstaklingum..." 

Hausinn sem birtist þegar blogg er skrifað vantar.  Þessi haus byrjar þannig:

"Rannsóknarnefnd Alþingis hefur tekið formlegar skýrslur af 26 einstaklingum..."

Eins og fréttin birtist á mbl.is þá kemur hvergi fram hvaða nefnd þetta er, bara "nefndin" eða "rannsóknarnefndin"  Þetta gerir það að verkum að fréttin er hálf samhengislaus og missir marks.  Maður getur ekki annað gert en klóra skallan og reyna að finna út hvað í ósköpunum er verið að fjalla um.  Mbl.is getur gert betur en þetta!

Kveðja,


mbl.is Skýrslur af 26 einstaklingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband