Færsluflokkur: Bloggar

Yfirgnæfandi líkur...

Þetta eru vissulega ánægjulegar fréttir, en ég vil bara minna á að það voru "yfirgnæfandi líkur" á að álver, járnblendi, málmblendi, þetta og hitt risi á Reyðarfirði í hátt í 30 ár!  Á meðan menn biðu eftir því sem koma skyldi rak allt annað á reiðanum þar til allt var nánast komið í kalda kol.  Þegar samningar eru í höfn og hafist er handa við byggingu gagnaveranna skal ég óska aðstandandi til hamingju, þangað til bíð ég eftir að þetta fari af stað:)

Kveðja,

 


mbl.is Talið líklegast að risavaxið gagnaver rísi á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyktar illa

Sem áhugamaður um eldamennsku þá er farið að slá í efni þessarar fréttar.  Ég held það sé alveg útilokað að geyma frosið ferskt kjöt í meira en mesta lagi 1-2 ár.  Ég man eftir  í gamladaga þegar maður var að kaupa heila lambsskrokka sem voru orðnir ársgamlir og þeir voru illa þurrir og langt frá því að vera góður matur og alls ekki bjóðandi á veitingastöðum.  Nú þekki ég ekki mikið til hvalkjöts en það er kjöt af spendýri líkt og lambakjöt, nautakjöt, svínakjöt o.s.frv.  Ég hef því ekki trú á að geymsluþol þess í frosti sé meira en 6-12 mánuðir.  17 ár er alveg út í hött að mínu mati. 

Kveðja og bon appetit:)

 


mbl.is Hvalkjötið dugði Úlfari í sautján ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfni

Þó svo að ég gagnrýnt Davíð á sínum tíma vegna andvaraleysis Seðlabankans fyrir hrunið, þá finnst mér að komið hafi í ljós að Davíð hafi gert sér grein fyrir í hvað stefndi og reynt hvað hann taldi mögulegt til að vara ráðamenn við.  Gat hann gert betur?  Örugglega en ég held að hvorki hann né aðrir hafi gert sér grein fyrir því hversu hratt þetta ferli varð, né heldur hversu gríðar stórt og fallvalt þetta íslenska bankaapparatið raunverulega var orðið.  Það er mikið af mjög hæfu fólki sem vann og vinnur hjá Seðlabankanum og að kenna Davíð einum um þátt Seðlabankans í hruninu er að mínu mati mikil einföldun. 

Þó svo að Davíð hafi ekki haft sérfræðiþekkingu á efnahagsmálum, þá var hann í pólitík svo áratugum skipti og mikið af því sem fram fer í gegnum ráðuneytin sem hann var í fjallaði um efnahagsmál, svo ég held að hann hafi haft nokkuð glögga innsýn inn í efnahagsmál Íslands.  Enda segir Anne að "neither the prime minister, nor the finance minister or financial regulator seems to have made any serious attempt to stem the growth of the Icelandic banks. " 

Kveðja,


mbl.is Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur ekki á óvart

Þessi frétt kemur ekki á óvart og eitthvað sem hefur verið fyrirséð lengi.  Leppfyrirtæki voru stofnuð af bönkunum út um allan heim til þess að taka lán hjá bankanum og kaupa síðan hlutabréf í bönkunum eða öðrum skráðum fyrirtækjum bankamannanna til þess að skapa peninga með svikum.  Þetta hefur alltaf minnt mig á bókina "Not a penny more, not a penny less" eftir Jeffrey Archer sem lýsir svipuðu dæmi.  Ný er farið að snúast ofan af svikamyllunni en ég er hræddur um að þessir peningar séu löngu tapaðir.

Kveðja,

 


mbl.is Undirbúa málsókn á hendur Gift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gert ráð fyrir 1-200

Það virðist var að koma betur og betur í ljós hversu illilega ríkisstjórnin er úr takt við raunveruleikan.  Þrátt fyrir mánaðarlangar ábendingar og viðvaranir Hagsmunasamtaka Heimilanna um yfirvofani greiðsluþrot og gjaldþrot heimilanna í landinu þá áætlar ríkisstjórnin að einungis 100 - 200 manns þurfi á greiðsluaðlögun að halda.  Ég skil ekki hvernig ríkisstjórnin komst að þessari niðurstöðu en ég get ekki ímyndað mér að fjöldi þeirra sem þurfa á greiðslualögun eða álíka aðgerðum skipti ekki þúsundum eða tugum þúsunda!

Kveðja,

 


mbl.is Þúsundir vilja greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska ríkið skaðabótaskylt?

Þó ég sé 100% fylgjandi rannsókn SFO og annarra aðila á íslenska bankahruninu, þá má ekki gleyma því að þetta getur dregið dilk á eftir sér.  Hugsanlegt er að íslenska ríkið gæti verið dæmt til að greiða sektir eða skaðabætur til aðila í Bretlandi vegna afskiptaleysis Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og íslenska löggjafans.  Ég er ekki að segja að svo sé, en það má ekki gleyma þessari hlið málsins.  Ef íslenska ríkið þarf að greiða skaðabætur þá lendir það á skattgreiðendum á Íslandi rétt eins og IceSave:(

Kveðja,

 


mbl.is Rannsaka íslensku bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir lánuðu til að kaupa sjálfa sig

Ég held að ég hafi minnst á það áður að þessi spilaborg sem byggð var í kringum íslensku bankana væri eins og hvert annað pýramída spil.  Enn og aftur er þetta staðfest af fréttum af eignatengslum í Kaupþingi þar sem eigendur stofnuðu félög til að fá lánaða fjármuni hjá bankanum til þess að kaupa hlutafé í bankanum.  Þarna var um gervi-eign að ræða sem ekkert var á bakvið þar sem bankinn í raun lánaði sjálfum sér til að kaupa í sjálfum sér.  Hinsvegar skapaði þetta gervi-eftirspurn eftir hlutum í bankanum sem þar með hækkaði verðgildi hlutanna á markaði. 

Þessi félög eru stofnuð aðeins rúmum mánuði áður en bankinn kemst í endanlegt þrot.  Bankinn stofnar þessi félög fyrir viðskiptavini, lánar þessum félögum að því er virðist nánast eingöngu til þess að kaupa í bankanum, þó svo að bankinn hafi á þessum tíma vitað að hann var að fara á hausinn.  Án efa hefur þetta verið gert til þess að reyna að pumpa bankann upp með þessum sýndargjörningum og koma í veg fyrir að hann færi á hausinn, í stað þess að koma fram af heiðarleika þá tók bankastjórn þann pól í hæðina að það væri hugsanlega hægt að svíkja sig út úr þessu. 

Frá mínum bæjardyrum séð er þetta ekki spurning um heiðaleika eða siðferði, það er orðið alveg ljóst að hvorugt var til staðar!  Núna er þetta spurning um það hvort réttarfar á Íslandi er í stakk búið til þess að taka á þessum glæpum og reyna að spyrna við fótum og taka á þessu máli af festu og einurð. 

Það er ein undantekning hvað varðar heiðarleika og siðferði - sá aðili sem lak glærusafninu til wikileaks.com hefur auðsjáanlega ofboðið skorturinn á hvorutveggja og ákveðið að hafast eitthvað að í þessu efni.  Þessi aðili, eða aðilar, munu örugglega eiga undir högg að sækja í framtíðinni.  Ef það viðgengst meðan þeir sem stóðu á bak við þau ömurlegu vinnubrögð sem við voru höfð ganga lausir þá er ónýtt réttarfar á Íslandi!

Kveðja,

 


mbl.is Stórskuldug aflandsfélög í eigu hluthafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör í uppnámi

Var ekki hægt að bíða með þetta þar til þessar nefndir höfðu gengið frá samningum við kröfuhafana?  Það er eins og allt sé gert vitlaust í þessum málum.  Skv. fréttum átti að vera búið að ganga fram þessum uppgjörum þann 14. ágúst eða eftir 11 daga.  Hverju munaði um hvort þessir menn hefðu starfað fram að þeim tíma?  Að mínu mati var þörf manna frá gömlu bönkunum í skilanefndirnar til að greiða aðgang og auðvelda þá vinnu sem skilanefndirnar stóðu frammi fyrir.  Að segja þessum mönnum að taka pokann sinn þegar mest á ríður að ganga fram samningum við kröfuhafa er afskaplega klaufalegt og sýnir að Fjármálaeftirlitið er ekki í takt við raunveruleikann. 

Svo vitnað sé í ruv.is:  "Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að í flóknu uppgjöri við kröfuhafa Landsbankans hafi allt farið uppí loft á föstudag. Fyrir var ágreiningur um mat á eignum og hvernig ganga eigi frá uppgjöri milli gamla og nýja bankans. Ekki hafi bætt úr skák þegar  tveimur af fjórum skilanefndarmönnum hafi verið vikið frá, fyrirvaralaust. Kröfuhafarnir hafi einfaldlega staðið upp frá borðum í fússi og haft í hótunum um málaferli og glæparannsóknir. "

Kannski er þetta bara gott ef þetta verður til þess að erlendir rannsóknaraðilar fá áhuga á þessu máli og hefja sjálfstæðar glæparannsóknir!

Kveðja,


mbl.is Mannanna ekki lengur þörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falskur tónn

Það þarf engan að undra viðbrögð talsmanns forsætisráðherra vegna greina Evu Joly.  Þessi ríkisstjórn, eins og þær síðustu á undan, er alls ófær um að taka á þeim málum sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. 

Mig langar til að taka fyrir það sem Hrannar segir  og haft er eftir honum á mbl.is:  "Dettur Evu í hug að þessi grein auki traust á Íslandi erlendis"

Ég veit ekki hvar Hrannar hefur alið manninn undanfarin misseri, en Ísland hefur EKKERT traust erlendis, ekki einu sinn á Íslandi!  Grein Evu hefur því algjörlega engin áhrif á traust eins eða neins á Íslandi því til þess að hafa áhrif á eitthvað þar þetta eitthvað að vera til staðar til að byrja með!

Það heimsóttu okkur hér nýlega vinir okkar frá San Antonio og með þeim í för voru hjón frá Englandi.  Þau höfðu ekki átt neinar eignir eða samskipti við íslenska banka né höfðu þau tapað neinum fjármunum á hruni íslensku bankanna.  En það var alveg auðheyrt á þeim að þau báru akkúrat ekki snefil af trausti til Íslands.  Þau hafði langað til að ferðast til Íslands en fannst það of dýrt.  Núna þegar það kostar aðeins um helming af því sem það gerði fyrir ári síðan, þá höfðu þau misst áhugann.  Þetta er afstaða fólks í Bretlandi sem tapaði ENGU á bankahruninu!  Ef Hrannar heldur að grein Evu Joly hafi áhrif á afstöðu bankastofnana í Evrópu og Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins þá er hann, eins og restin af ríkisstjórninni augljóslega er, algjörlega úr sambandi við raunveruleikann. 

Ég rakst á þessa grein frá 2006 (http://docs.google.com/gview?a=v&q=cache:bzfF3TZH0xgJ:www.columbia.edu/~js3204/greinar/M06erlendareignirogskuldir.pdf+erlendar+skuldir&hl=en&gl=us) þar sem gerður er samanburður á erlendum skuldum Íslands og nokkurra annarra ríkja.  ÞÁ var skuldastaða Íslands 324% af vergri landsframleiðslu og 251% eignir á móti eða nettó 83% skuldir af VLF, skv. Þar segir svo í niðurlagi:

"En að stærstum hluta virðist nettó skuldastaða landsins endurspegla væntingar almennings um áframhaldandi hraðan hagvöxt. Ef þessar væntingar eru raunhæfar þurfum við engar áhyggjur að hafa af nettó erlendri skuldastöðu þjóðarinnar. Ef hins vegar hagvöxtur verður mun minni næstu 20 til 30 árin en hann hefur verið síðustu 15 ár er líklegt að nettó erlendar skuldir þjóðarinnar verði þungur baggi."

Nú eru líkur á að þessar skuldir séu milli 200 og 300% af VLF eða allt að 3.6 sinnum meiri en þessi varnaðarorð frá 2006 eiga við um.  Árið 2006 var talið að þessi 83% yrðu þungur baggi í slæmu árferði.  Nú horfum við fram á allt að 300% í MJÖG slæmu árferði.  Þetta er ekki bara þungur baggi, ég held að hann sé nánast óviðráðanlegur.  Endalaus lán erlendis frá koma ekki til með að hjálpa Íslandi ef landið getur ekki staðið í skilum með afborganir og vexti.  Þá mun AGS taka hér ÖLL völd og Ísland verður lýst gjaldþrota.  Þrátt fyrir að sumt af þeim lánum sem verið er að taka nú séu notuð til að byggja upp gjaldeyrisforða og komi þannig sem eignir á móti skuldum, eins og Hrannar bendir réttilega á, þá er líka verið að taka stór lán til þess að greiða nýjar erlendar skuldbindingar, svo sem IceSave.  En það er bara ekki málið.  Málið er að nettó skuldir hafa aukist og halda áfram að aukast.  Þær jukust í góðærinu og munu halda áfram að aukast nú þegar góðærinu er lokið á mjög afdrifaríkan hátt. 

Ríkið, fyrirtæki og einstaklingar hafa safnað gífurlegum skuldum undanfarin 5 ár og þar var teflt á tæpasta vað í því góðæri sem þá stóð, hvort sem það var raunverulegt eða ekki.  Nú eru mögru árin, sennilega talsvert mörg, framundan og skuldaklafinn hefur þyngst til mikilla muna.  Og enn er ríkið betlandi lán  út um allar trissur og Hrannar, aðstoðarmaður forsætisráðherra, er hræddur um að ríkisstjórninni takist ekki að auka enn á skuldaklafann með betlilánunum vegna þess sem Eva Joly segir. 

Sér einhver einhverja glóru í þessu öllu saman? 

Kveðja,

 


mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1,2 milljarðar ekki milljónir

Í greininni segir "Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes sagði Björgólf 799. ríkasta mann heims í mars 2007 og mat auð hans á 1,2 milljónir dollara eða 81 milljarð króna að þávirði." 

Ég vil benda á að hér er um að ræða 1,2 milljarða dollara, ekki milljónir.

Kveðja,

 


mbl.is Einn sá ríkasti í heimi gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband