Færsluflokkur: Bloggar

Gott framtak - birta á mbl.is takk

Mér finnst þetta gott framtak hjá Evu Joly.  Af hverju er ekki heil herdeild íslendinga að skrifa um ástandið í erlend blöð?  Ísland er einangrað og allir halda að þjóðin sé upp til hópa þjófar og ribbaldar sem skilji eftir sig sviðna jörð.  Þessu þarf að breyta og það þarf að virkja alla þá góðu penna sem til eru á Íslandi til að skrifa um ástandið til að breyta almenningsálitinu sérstaklega á Norðurlöndunum, Bretlandi og Hollandi. 

Hvað um það, þá finnst mér miður að eingöngu Le Monde hefur grein Evu aðgengilega á netinu (http://www.lemonde.fr/archives/article/2009/08/01/l-islande-ou-les-faux-semblants-de-la-regulation-de-l-apres-crise-par-eva-joly_1224837_0.html) Hvorki Daily Telegraph né Aftenposten eru með greinina aðgengilega á netinu og ég kann ekki bofs í frönsku;)  Það væri gaman ef mogginn birti greinina á mbl.is svo allir geti lesið hana á íslensku:)

Kveðja,

 


mbl.is Stöndum ekki undir skuldabyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út fyrir

Í fyrirsögn segir "Út fyrir gröf og dauða"  Ég er nú farinn að ryðga svolítið í íslenskunni eftir rúm 13 ár erlendis, en ég er nokkuð viss um að þetta orðtæki eigi að vera "út YFIR gröf og dauða"

Kveðja,


mbl.is Út yfir gröf og dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tengdir aðilar í botnlausum fréttum

Stjórnendur Landsbankans litu á stærsta hluthafa bankans sem ótengdan aðila.  Litu stjórnendur bankans einnig á sjálfa sig sem ótengda aðila?  Sérkennileg afstaða og algjörlega óútskýrt hvers vegna stjórnendurnir litu á Björgólf Thor sem óskyldan aðila. 

Enn og aftur eru fréttamenn ekki með rökhugsunina í lagi og fara ekki á veiðar eftir frekari skýringum.  Í fréttin segir: "Fyrrverandi stjórnendur gamla Landsbankans segjast ekki hafa litið á Björgólf Thor Björgólfsson sem tengdan aðila" 

Hverjum sögðu stjórnendurnir þetta?  Fréttamanni?  Rannsóknarnefnd?  Saksóknara? 

Hvaðan er þetta haft?  Beint frá stjórnendum/stjórnanda?  Frá öðrum fréttamanni?  Áreiðanlegum heimildarmanni (hvar?)? 

Það mætti gjarnan koma fram akkúrat hverjum þetta er haft eftir, þ.e.a.s. ef þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu, ákveðin stjórnandi sagði þetta, eða eitthvað annað

Hverjar voru skýringar stjórnendanna á því að þeir litu svo á að Björgólfur Thor væri EKKI tengdur aðili þó svo að hann ætti stærsta eignarhlutinn í bankanum? 

Kveðja,


mbl.is Litu ekki á Björgólf Thor sem tengdan aðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofvöxtur

Í framhaldi af þessu hlýtur að vera spurt - þó ekki hafi það verið gert af fréttamanni - hvort Ísland ætli að fara að fordæmi Bandaríkjanna og setja reglur um árlegan hámarksvöxt banka og fjármálafyrirtækja?  Eða á bara að vona að þetta reddist af sjálfu sér ef svipuð staða kemur upp aftur?  Ef íslensku bankarnir komast í erlenda eignaraðild (dreifða eða ekki) þá getur sú staða komið upp að bankarnir taki að þenjast aftur.  E.t.v. er nú tími til að staldra við og finna út hvað fór úrskeiðis varðandi lagasetningar og framkvæmd laga og koma í veg fyrir að bankabóla komi aftur upp og springi beint framan í almenning.

Kveðja,

 


mbl.is Hrunið nær óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háar lánveitingar - Hvar eru þessir peningar í dag?

Ekkert sem kemur á óvart þarna, en í fréttinni segir:  "Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki má áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni."

Mér finnast þessi 25% vera býsna há tala fyrir einn eða tengda viðskipamenn.  Nú er ég ekki fjármálaséní, veit ekkert um bankaviðskipti, og veit ekki nákvæmlega hvað er átt við með "eiginfjárgrunni"  Skv. breytingum á lögum, sjá http://www.althingi.is/altext/stjt/2006.170.html þá er auk þess kveðið á um í 4. grein að "Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni."

Báðar þessar tölur virka mjög háar fyrir mig en það má vel vera að þær séu eðlilegar og svipaðar og sambærilegar reglur í öðrum löndum.  Í lögunum frá 2002 segir ennfremur að "Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja."  Þannig að þó lögin segi 25% þá þarf líka að skoða hvaða viðmið FME setti fyrir "stórar áhættur fjármálafyrirtækja"

Það sem mér finnst e.t.v. standa uppúr í þessu er að öll þessi fyrirtæki sem fengu lánað eru annað hvort gjaldþota, á leiðinni í gjaldþrot, komin í greiðslustöðvun eða að komast í strand.  Hvað varð um allar þessar fjárhæðir sem þessi fyrirtæki fengu að láni?  Til hvers var þeim lánað?  Ekki virðast þessi fyrirtæki hafa bætt við sig eignum, svo mikið er víst.  Eimskip fékk 100 milljarða ef ég man rétt.  Hvað gerði Eimskip við þessa peninga?  Voru þessar fjárhæðir eingöngu notaðar til að kaupa hluti í öðrum félögum víkingapýramídans?  Af hverju eru blaðamenn ekki að grafa í þessu?  Það er einhverjum smáatriðum lekið hingað og þangað og farið með þetta eins og mannsmorð.  Er heilbrigð skynsemi líka flúin frá Íslandi?

Þó svo að sukkið hafi verið svakalegt, þá má nú minna gagn gera en alla þessa hundruði eða þúsundir milljarða.  Það þarf pláss til að koma þessu fyrir... 

Spyr sá sem ekki veit...  Kveðja,

 


mbl.is Skoða lánveitingar Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faldar fréttir

Þessi frétt er eiginlega fyrir neðan allar hellur.  Hér er haldið af stað með hálfkveðnar vísur um tryggingar á innistæðum íslendinga sem eiga einhverja aura í bönkunum.  Fréttamenn verð að fara að vakna upp af Þyrnirósarsvefni sínum og byrja að hafa sjálfstæða hugsun og grandskoða það sem þeir eru  mataðir á af stjórnmálamönnum eða málsvörum þeirra.  Fréttir eru birtar án þess að reynt sé að gera neitt til þess að staðfesta þær.  Gera fréttamenn sér enga grein fyrir því hvað frétt eins og þessi getur þýtt fyrir innistæðueigendur? 

Nú er allt í einu komið algjörlega annað hljóð í strokkinn en verið hefur síðan bankarnir hrundu með tilheyrandi flugeldafári í Október.  Nú eru íslenskar innistæður "tryggðar þar til annað hefur verið boðað" og "Fyrr eða síðar mun fyrirkomulagið þó koma til endurskoðunar"  Eitthvað er að breytast en þessum ágætu fréttamönnum dettur ekki í hug að setja undir sig hausinn og grafa upp hvað er að breytast, hvers vegna og hvaða áhrif það mun hafa. 

Mér finnst að fjölmiðlar á Íslandi hafi lýst sig allt of mikið stikk frí af ábyrgð á bankahruninu.  Íslenskir fjölmiðlar upp til hópa löptu upp sömu gömlu fréttirnar af velgengninni á Íslandi árum saman, meðan "velgengnin" var í rauninni ekki til - spilaborg sem gat ekki annað en hrunið og margir bentu á löngu fyrir banka hrunið.  Ef til vill var það vegna eignatengsla spilaborgarmanna á fjölmiðlunum, sem leiðir aftur hugann að hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að blaðamenn séu undir hæl eigenda fjölmiðla þannig að fjölmiðlarnir séu njörvaðir niður og verði að fá leyfi eigenda til að vinna vinnuna sína.  Þetta er ekkert annað en spilling og íslensku fjölmiðlarnir voru og eru með í spillingunni.

Kveðja,

 


mbl.is Tryggðar þar til annað verður boðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir á koppinn

Nú er þetta allt að komast á koppinn hjá okkur og smellur saman eins og flís við rass.  Eftir nokkrar vikur verður bankasaga Íslands endanlega úr sögunni, bankarnir allir með tölu gamlir og nýir, nema e.t.v. Margeirs skákmeistarabanki, komnir í eigu útlendinga.  Það hlýtur þá væntanlega að þýða að Landsbankinn gamli og nýi verði fullkomlega hæfir til að borga allt þetta IceSave mál upp í einum grænum, og bjarga þar með Íslandi svo það fari nú ekki endanlega á hausinn.  Þetta reddar líka ESB í fljótheitum, því þeir gætu sett upp snúð yfir öllum þessum skuldum og farið að spyrja óþægilegra spurning. 

Einhvernvegin finnst mér að þetta sé svolítil einföldun en ég bara get ekki fundið heila brú í þessu bankadæmi svo þá er bara að gera grín að ruglinu;) 

Kveðja


mbl.is Nýr Íslandsbanki innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banki skuldar banka...

Gamla Kaupþing skuldaði Nýja Kaupþingi, svo í stað þess að borga á ákvað Gamla Kaupþing að kaupa meirihlutann í Nýja Kaupþingi.  Nú er alveg kjörið fyrir þá sem skulda bönkunum að semja við þá um að í stað þess að borga skuldinir sínar, þá ætli þeir bara að fá hlut í bankanum.  Klappa svo á öxlina á bankastjóranum og segja "Þetta lagast allt saman" 

Ætli þeir hafi fengið lánað fyrir þessu hjá Gamla Landsbankanum???  Þetta hljómar allt svo afskaplega einfalt og kristaltært, alveg eins og bergvatnsáin í sveitinni í gamla daga, en einhvernvegin bögglast það fyrir mér hvernig líkið getur nú allt í einu risið upp, hlaupið út í búð og keypt sér kistu...  Þarna eru snjallir menn innan búðar...  Ætli þeir gangi um í lökum???

Kveðja,

 


mbl.is Gamla Kaupþing skuldaði Nýja Kaupþingi fjármuni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar eignast banka

Ég verð nú bara að viðurkenna algjört skilningsleysi mitt á þessari stöðu.  Ríkið yfirtók hreyturnar af þessum þremur bönkum í Október 2008 og skildi restina eftir í gömlu bönkunum.  Nú allt í einu er komin líftóra í hræin af gömlu bönkunum og þeir eru að eignast ráðandi hlut í því sem ríkið yfirtók.  Á dögunum var sagt frá því að ekkert væri því til fyrirstöðu að bankarnir (nú veit ég ekki hvort var átt við líkin í kistunni, eða líkin upprisnu) gætu farið til útlanda með útibú og farið að safna peningum þar - sbr. IceSave.  Ætlar ríkið að láta það viðgangast að líkin rísi upp og búi til annað IceSave ævintýri svo hægt sé að ganga endanlega frá þessum ræfli sem eftir er af Íslandi? 

Er Ísland á góðri leið með að verða fyrsta og eina ríkið sem fer inn í ESB sem algjörlega uppþurrkað og gjaldþrota dæmi sem verður bara tekið upp í skuld og dettur síðan upp fyrir einhversstaðar á bak við þil í Brussel. 

Eða er þetta Nýja Ísland sem rís upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix og lætur sem ekkert hafi í skorist - fer bara í næsta víking og þurrkar upp bankabækur Evrópubúa á nýjan leik.  Nú ef við komumst inn í ESB, þá er kominn aðgangur að allri Evrópu og hægt að gera enn stórkostlegri gjaldþrot með því að leggja allt ESB undir - það verður eitthvað annað en þegar var bara spilað með Ísland sem er nú svo lítið að varla tekur tali.  Með ESB munu þessir íslensku heimsfjármálaspekúlantar virkilega komast í feitt og geta spilað hátt...  Ég bara hreinlega botna ekki þessi banka fræði;) 

Kveðja,


mbl.is Skilanefndir eignast tvo banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankasala

Ég held að sala Landsbankans og Búnaðarbankans hljóti að teljast með stærstu afglöpum í einkavæðingu á vesturlöndum um áratugi ef ekki aldir.  Mér finnst vera stór spurning er hvort þeir embættismenn sem sömdu um þetta ferli á sínum tíma eigi ekki að sæta forgangsrannsókn sérstaks saksóknara fyrir afglöp í starfi.  Það eru ekki bara kaupendurnir sem rústuðu þessu dæmi, seljendurnir hafa stóra ábyrgð líka fyrir að selja þetta til aðila sem auðsjáanlega höfðu enga reynslu né þekkingu á bankarekstri og höfðu ekki fjármagn til þess að kaupa bankana.  Hversvegna voru ekki hlutabréf í bönkunum seld á almennum markaði í stað þess að selja þá útvöldum aðilum sem síðan hvorki vissu hvað þeir voru að gera né höfðu bolmagn til þess að kaupa bankana?  Þeir sem stóðu á bak við þetta eru að mínu mati sekir um alvarlegt dómgreindarleysi og hrein afglöp í starfi og ættu skilyrðislaust að sæta ábyrgð fyrir dómstólum.

Það er alveg með eindæmum að þessir bankar sem voru seldir á slikk til aðila, sem gátu síðan ekki staðið í skilum með afborganir af þeirra eigin lánum fyrir kaupverðinu, hafi síðan komið Íslandi á vonarvöl með hverju afglapaverkinu á fætur öðru.  Ég bara kemst ekki yfir að þessir menn hafi ekki haft döngun í sér til þess að greiða þessar skuldir og koma þessum fyrirtækjum svo gersamlega í rúst að það er leitun að öðru eins.  Enron er það eina sem kemur upp í hugann hjá mér. 

Þessi endaleysa með krosstengslum og lánum byrjaði sem sagt ÁÐUR en sölu bankanna var lokið - það var byrjað á því að lána í kross til þess að kaupa bankana og svo var bara haldið áfram og ný fyrirtæki stofnuð sem var svo lánað úr bönkunum til þess að kaupa í öðrum félögum og þar með hækka eignir án þess að nokkur skapaður hlutur stæði á bak við þetta.  Það var hvorki fjármagn né eignir á bak við sölu bankanna heldur einungis lán frá þessum sömu bönkum til þeirra aðila sem keyptu þá.  Þetta dæmi verður einfaldlega fáránlegra og fáránlegra með hverjum degi sem líður. 

Hvar voru dagblöðin og blaðamenn síðasta áratuginn?  Hvar voru eftirlitsaðilarnir?  Voru allir keyptir til þess að þegja?  Voru allir sofandi á vaktinni? 

Kveðja,


mbl.is Dýrt fyrir ríkið að selja banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband