Aðilar ekki sammála um dómstólaleið

Í frétt á ruv.is (http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item288630/) er sagt að Svavar Gestson formaður íslensku IceSave samninganefndarinnar hafi sagt "...að dómstólaleiðin sé ekki tæk í málinu þar sem báðir málsaðilar séu ekki sammála um að fara með málið fyrir dóm."

Nú þekki ég akkúrat ekki neitt til alþjóðalaga og alþjóðasamninga en ég hef aldrei heyrt um að ekki sé hægt að fara fyrir dómstóla með mál vegna þess að deiluaðilar eru ekki sammála um að fara með málið fyrir dóm.  Mér virðist hinsvegar það vera venjan að mál fari fyrir dómstóla vegna þess að deiluaðilar geta ekki komist að samkomulagi.

Ég hef plægt aðeins í gegnum IceSave samninginn eins og hann var birtur á dögunum og eitt sérstaklega sem stingur í augu er að þessi samningur er milli Íslands annars vegar og stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi hinsvegar.  Hann er EKKI við íslensk stjórnvöld, heldur Ísland.  Ísland er hinsvegar landið sem íslendingar búa á og þar sem íslensk stjórnvöld starfa.  Samningurinn er ekki við Bretland og Holland, heldur bresk og hollensk stjórnvöld. 

IceSave samningurinn er slæmur gjörningur, en hinsvegar er vandséð hvaða aðrar leiðir eru færar í stöðunni.  Íslensk stjórnvöld, hvar í flokki sem þau hafa staðið undanfarin 10 ár, eru samábyrg fyrir þessum endalausu klúðrum sem orsökuðu hrun bankanna.  Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið brugðust eftirlitsskyldu sinni.  Ég held að enginn, ekki einu sinni Davið Oddson, geti verið ósammála því.  Seðlabankinn og Davíð gerðu athugasemdir við stöðu bankanna í óbirtum plöggum, en opinberlega var allt í góðu lagi.  Stjórnvöld gerðu akkúrat ekki neitt til að bregðast við þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp á alla vegu.  Að mínu mati hafa stjórnvöld ENN lítið sem ekkert gert til þess að bregðast við þessu. 

Núverandi ríkisstjórn gat komið fram skilyrðum fyrir IceSave og sett pressu á Breta og Hollendinga.  Þeir þurftu ekki að lúffa gersamlega eins og þeir hafa gert.  Eitt af þeim skilyrðum hlaut að vera að málshöfðanir gegn Tryggingarsjóði og íslenskum  stjórnvöldum vegna IceSave yrðu ekki mögulegar, hvorki af hálfu viðkomandi ríkja eða einstaklinga eða fyrirtækja í þessum löndum.  Ef ég skil IceSave samninginn rétt þá er Tryggingasjóður skuldbundinn til að greiða allt að 20,887 evrur og restin fellur á stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi.  Ef einstaklingar og fyrirtæki geta síðan hafið lögsókn gegn íslenskum stjórnvöldum vegna skulda gömlu bankanna, þá er þessi samningur algerlega gagnslaus. 

Það er sárt að horfa upp á ástandið á Íslandi séð utan frá.  Menn hljóta að spyrja sig hvernig í ósköpunum þetta gat gerst.  Ég hef ekki svar við því en ég er sannfærður um að þegar farið verður að grafa í þessi endalausu krosseignatengsl fyrirtækja og banka á Íslandi þá hlýtur að koma að því að það þarf að moka flórinn.  Það er ekki eðlilegt eins og í dæminu um Sterling að fyrirtæki sem er rekið með tapi og rambar á barmi gjaldþrots í fleiri ár gangi kaupum og sölum og HÆKKI í verði úr 4 í 20 milljarða á 2 eða 3 árum.  Ég fæ það dæmi engan vegin til að ganga upp! 

Svo hrundi öll þessi spilaborg, því það var allt sem hún var.  Það voru engar raunverulegar eignir á bak við stóran hluta viðskipta á Íslandi síðastliðin 10 ár - þetta voru peningar á pappír sem ekkert gildi höfðu og var haldið í verði með endalausum kaupum á hlutabréfum sem voru fjármögnum með lánum tryggðum í hlutabréfum sem höfðu enn ekki hækkað í verði en var fyrirséð að myndu hækka vegna eftirspurnar þegar lánsféð var notað til að kaupa bréf.  Þetta var, vitandi eða óvitandi, byggt upp eins og hver annar pýramídi og eins og Egypsku bræður þeirra var hann byggður á sandi.  

Einhverntíma árið 2007 fór svo að flæða að og þá byrjuðu hornsteinarnir að grotna.  Síðasta sumar komust menn svo að því að þetta var ekki pýramídi heldur sandkastali og háflóð var á næsta leiti.  Í Október brotnuðu svo öldurnar og þá varð ekkert eftir!  Nú eru öll þessi pappírsfyrirtæki farin yfirum og eftir liggur slóð upp á fleiri hundruð milljarða í tapaðar skuldir því það var engin trygging fyrir þessum skuldum sem bjó til stærstan hluta af eignasafni gömlu bankanna.  Gömlu bankarnir tæmdir og ekkert stendur eftir.  Eimskipafélag Íslands, óskabarn þjóðarinnar, rambar á barmi gjaldþrots og óskaði eftir nauðasamningum fyrir nokkrum dögum síðan.

Slæmt mál, hvernig sem á það er litið.  En íslendingar eru sterk þjóð sem hefur gengið í gegnum erfiða tíma áður og ég efast ekki um að okkur tekst að komast út úr þessu.  En það verður á brattan að sækja og þjóðin þarf að standa saman þó erfitt sé.  Öll sú pólitík sem hefur litað þetta mál frá upphafi dregur aðeins úr mikilvægi þess.  Þetta er ekki pólitísk mál, þetta er afbrotamál og   þar eru réttarfarshagsmunir og sjálfstæði þjóðarinnar í veði.

Kveðja frá Port Angeles


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband